A GUIDE TO ADVENTURE AND ACTIVE LIFESTYLE

Explore / Move / Swim / Eat / Stay / Relax

ADVENTURE MAY HURT YOU, BUT MONOTONY WILL KILL YOU.

Nourish your  body, mind and soul.

Country

Landscape

Season

Mood

Activities

Cities

10.000 Steps

Roadtrips

 

Home

Away

A WILD HEART  LODGE    |    SHOP PRINTS & HOMEWARE    |   THE LOCALISTS   | 10.000 STEPS | URBAN VILLAGER | WILD HEART ADVENTURES |  BUCKET LIST

Home

Away

Home

Away

Thorsteinn steingrimsson

Hundar hafa skynjun sem nútímamenn hafa glatað
Hundar hafa skynjun sem nútímamenn hafa glatað

Pabbi

Hundar hafa verið mönnum fylgispakir í að minnsta kosti tíu þúsund ár. Upphaf þeirrar samfylgdar hefur líklega verið í þeim dúr að hundarnir hafa átt auðvelt með að ná sér í mat nálægt manninum og þannig hænst að honum, en maðurinn hefur aftur séð sér hag í að hafa hundinn sér til verndar. Þetta sambýli hefur gengið vel og stundum svo vel að í annála hefur verið fært, samanber orð Friðriks mikla, keisara Austurríkis: „Því betur sem ég kynnist mönnunum, því vænna þykir mér um hundinn minn.” 

Hér á landi hafa hundar löngum verið notaðir til fjárgæslu og reynst misjafnlega. Það er gömul saga og ný að menn hafa haft misjafnt lag á að temja hunda svo vel fari. Þorsteinn Svanur Steingrímsson heitir maður sem þekktur er fyrir það hve gott lag hann hefur haft á hundum. Hann hefur líka átt marga hunda og suma sögufræga.  

Þorsteinn Svanur Steingrímsson er fæddur á Litla landi, gömlum bæ sem eitt sinn stóð út í Skerjafirði. Sá bær er nú löngu horfinn og kominn flugvöllur þar sem Þorsteinn forðum steig sín fyrstu spor. Kvaðst hann ekkert muna eftir sér á fæðingarstað sínum utan það að hafa séð þar traktor í fyrsta skipti á æfi sinni og orðið mjög ótta sleginn. Litla land var smábýli og foreldrar mínir bjuggu þar ásamt með gömlum hjónum sem voru með skepnur. Faðir minn var hins vegar sjómaður. Foreldrar mínir höfðu þó áður verið búandafólk enda bæði úr sveit, hann af Rangárvöllum en hún vestan af Hvalfjarðarströnd. Smábarn flutti hann með foreldrum sínum og systkinum að Fossvogsbletti 6. Það var lítil byggð í Fossvoginum þegar við fluttum. Við fengum þarna tveggja hektara lóð svo athafnarýmið var mikið. Lóðir þessar voru ætlaðar undir sumarbústaði en margir reistu sér þarna hús sem hægt var að búa í allt árið og voru jafnvel með smábúskap. Við vorum þó ekki með neitt búfé, nema þá hunda sem ég átti. 


Rex


Ég eignaðist fyrsta hundinn sjö ára gamall. Það var sjómaður sem gaf mér hann og hann kom að utan. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þá en seinna áttaði ég mig á að sá hundur hefur líklegast verið annað hvort af schæfer kyni eða jafnvel norskur eða grænlenskur húski, sem kallaðir eru. En þetta var snjall og góður hundur. Ég þjálfaði hann auðvitað ekki markvisst en hann lærði samt marga hluti. Hann hér Rex og varð fimm ára gamall. Hann var mikill vinur heimiliskattarins og þeir dóu úr sama sjúkdómi, fyrst kötturinn og svo hundurinn nokkrum dögum seinna. 


Þessi hundur var frábært dýr. Hann fylgdi mér jafnan en gætti jafnframt annarra úr fjölskyldunni. Systir mín átti þá lítið barn og eitt skipti hafði það vafrað niður að stórum skurði og dottið ofan í hann. Hundurinn kom með barnið heim í kjaftinum. Hann hafði fylgt því eftir og dregið það upp úr skurðinum, bitið í bakhluta þess og hélt á því eins og dúkku. Rex gætti fjölskyldunnar vel en hann var aldrei grimmur.


Sá Guli

Hundurinn vardi fólk fyrir áreitni hermanna.

Um sama leyti fékk ég annan hund. Hann var sá eini hér á landi þá af tegundinni Great Dane (stóri danski hundurinn). Hann var eins og tígrisdýr á litinn og risastór. Hann átti mektarmaður í Reykjavík, en hann bjó ekki á landinu þá, og hafði fólk til að passa hundinn í stóru húsi upp í Hááleiti. En hundurinn tók ástfóstri við mig og fólkið réð ekki við hann. Maðurinn kom svo heim og fékk að vita að hundurinn sliti alltaf hlekkina af sér heima við og færi til mín. Eitt sinn þegar ég var veikur þá elti faðir minn hann með prik í hendi, til að fæla hann frá húsinu en hann lét sig ekki, hann lá við gluggann þar til ég kom út. Það varð úr að þessum hundi var komið fyrir hjá okkur. Rex og hann urðu miklir vinir og félagar þó stærðarmunur á þeim væri mikill. Hann át líka mikið en af því þurfti ég ekki að hafa áhyggjur, eigandi hans sá um þá hlið málsins. Þessi hundur var blindur á öðru auganu því hann hafði lent í bílslysi og gat verið dálítið varhugaverður ef einhver nálgaðist hann frá blindu hliðinni, annars gerði hann engum neitt, lögreglumenn voru samt alltaf á eftir honum. Þeir réðu þó lítið við hann því hann braust út úr bílunum hjá þeim. Þeir brugðu því oft á það ráð að sækja mig ef kvartað var yfir honum. Þetta var á stríðsárunum og þessi hundur var oft notaður til að fylgja fólki í Hafnarfjarðar strætó sem fólk úr dalnum tók til að komast í bæinn. Með þeim vagni fórum við systkinin jafnan niður í Austur- bæjarskóla þar sem við gengum í skóla. Margir, sérstaklega konur, óskuðu eftir fylgd hundsins því fólk varð stundum fyrir áreitni hermanna. í Fossvogsdalnum voru á þessum tíma mörg jarðbyrgi með hermönnum í. Ég og stóri hundurinn fórum í æði margar slíkar ferðir. Hermennirnir létu sér ekki nægja að angra konur á víðavangi heldur kom fyrir að þeir heimsæktu þessi afskekktu hús í dalnum að næturþeli. Þeir komu eitt sinn heim en fóru þá víst húsavillt. Þeir höfðu heyrt þess getið að í dalnum byggi einhver léttlynd kona og komu heim til að leita hennar. Hún hafði búið í húsinu við hliðina um tíma, en var flutt. En þegar þeir komu heim þá mættu þeir þeim gula og þeir voru óhemju fljótir að hafa sig á brott. Það má segja að þeir flygju yfir tveggja metra girðingu til að komast inn á sitt svæði. Þessi guli hundur lauk svo ævi sinni að skömmu eftir stríð sló hann hestur og al blindaði hann og þá varð að lóga honum. Þá var Rex vinur hans þegar dáinn.


Hundar í þéttbýli hafa það oft betra en hundar í sveit


Næsta hund eignaðist ég þannig að sjómaður kom með hvolp austan úr sveit og var hann hjá mér í nokkra mánuði. En þá var móðir mín búin að fá nóg af hundum í bili og í býti morgun einn fóru ættingjar mínir austan úr sveit með hvolpinn áleiðis austur aftur. En á leiðinni varð hann svo bílveikur að hann ældi allan bílinn út og þá skildi fólkið hann eftir á miðri Hellisheiði. Hann skilaði sér heim en ég þoldi þetta fólk ekki eftir þetta, fannst þetta ill framkoma við hvolp greyið. Þær raddir hafa oft verið háværar að það sé illa gert að hafa hunda í borg, þar líði þeim illa, hins vegar líði hundum óskaplega vel í sveit. Þessu er oft þveröfugt farið. íslendingar hafa löngum litið á hunda eins og hverja aðra hluti sem væru bara þarna. Stundum áttu þessi grey varla bæli og máttu ekki koma í hús. Eg sá þetta oft þegar ég kom á bæi. Á einstaka stað sá maður að hundurinn var einhvers metinn í annan tíma en rétt á haustin og vorin í smalamennsku. Ég held að hundur sem býr í þéttbýli og hugsað er um daglega hafi það mikið betra en hundur í sveit sem enginn hefur áhuga á. Hugarfar manna í sveitum til hunda er að breytast. Til voru menn sem þjálfuðu hunda sína og fengu góðan vinnukraft í staðinn. Þetta sáu hinir í kring og það vakti nokkra til umhugsunar og kom þeim jafnvel til að sinna hundum sínum.


Penni kemur til sögunnar


Eftir að barna- og unglingaskóla lauk þá stundaði ég nám í Iðnskólanum og varð trésmiður og húsgagnasmiður. Ég ætlaði um tíma að verða arkitekt og hafði sótt um skólavist, en veikindi hömluðu því. Seinna gekk ég í lögregluna og hef unnið þar fram á þennan dag. Ég kynntist ungur Helgu konu minni og við fórum snemma að búa saman og eignast börn. Fyrst bjuggum við heima hjá foreldrum hennar og settum svo saman bú í litlum sumarbústað og vorum þar þegar ég eignaðist þann hund sem er mér einna eftirminnilegastur af öllum þeim hundum sem ég hef átt. Það var árið 1955 að kona ein kom hingað til lands vestan frá Bandaríkjunum og hafði í för mér sér schæfertík. Hún skildi tíkina eftir hér og kom hún oft heim til okkar. Ég fylgdist vel með henni því hún var talsvert lík Rex gamla mínum. Hún var dálítill úlfur í sér þessi tík og eirði eiginlega hvergi. Hún átti síðan hvolpa með einum af fyrstu blóð-hundunum sem hér komu. Hún kom stundum heim með einn eða tvo hvolpa og fór svo með þá aftur. Einn hvolpanna var hjá okkur þegar hún dó frá þeim þriggja vikna gömlum. Við tókum hvolpinn að okkur og ég mataði hvolpinn með mjólk á dúkkupela. Hann hjarnaði við og varð einn sá albesti hundur sem ég hef nokkurn tímann komist í kynni við. Hann hét Penni og varð frægur hundur. Nafn sitt dró hann af því að á endanum á sléttri rófu hans var svartur depill en að öðru leyti var hann rauðbrúnn eins og blóðhundar eiga kyn til. Hann hafði hins vegar byggingarlag schæfer- hunds nema hvað eyru hans voru hálflafandi. Hann var óhemjulega stæltur og vel gefinn. Ég þjálfaði hann sem veiðihund vegna þess að vá þeim tíma skall á hundabann í Kópavogi. Þjálfun hans tók afar stuttan tíma vegna þess hve næmur hann var. Við Penni gengum saman á mála hjá veiðistjóra.


Við landamæri lífs og dauða


Um þetta leyti stóð til að skera mig upp í bakinu. Ég og konan min höfðum bæði þá nýskeð fengið lömunarveiki. Hún var á spítala í fleiri mánuði en náði sér smám saman en ég var aldrei lagður inn. Ég fór hins vegar ekki betur út úr þessum veikindum en hún, því hryggurinn á mér gekk allur úr skorðum og ég hef aldrei jafnað mig að fullu eftir þetta áfall. Á þeim tíma sem ég beið eftir að leggjast undir hnífinn gekk ég iðulega með Penna um Reykjanesskaga í tófuleit. Þessar gönguferðir urðu mér til bjargar. Ég styrktist svo í bakinu að ég þurfti ekki að ganga undir uppskurðinn. 


Einhvern tíma á þessu veikindatímabili varð ég fyrir einkennilegri reynslu sem hafði mikil áhrif á mig. Meðan að Helga kona mín var á spítalanum var ég að vinna við að leggja gólf heima. Ég lá mikið á hnjánum við það verk og það endaði með að ég fékk ígerð í annað hnéð. Ég var einn heima því börnin okkar voru hjá foreldrum Helgu. Ígerðin í hnénu óx og varð að ískyggilega stórri kúlu. Ég átti oft erfitt með að sofa vegna kvala í hnénu. Eina nóttina tókst mér loks að sofna en man svo næst að ég sé sjálfan mig liggja í rúminu en þó er ég fyrir ofan rúmið. Frá líkamanum í rúminu og þangað sem ég taldi mig vera var gull eða silfurlitur þráður Mér fannst ég fara eitthvað langt í burtu og eiga tal við einhvern sem ég geri mér ekki grein fyrir hver var. Hitt man ég glöggt hve óskaplega vel mér leið. Ég vissi að ég var dáinn en gerði mér þó ekki grein fyrir því. Eg var vel sáttur við að fara að öllu leyti, nema hvað mér fannst ég ekki geta farið frá konunni veikri og börnunum. Ég staldraði við og fannst ég ræða þetta við einhvern. Hann sagði þá að það væri rétt, minn tími væri ekki kom- inn. Þetta varð til þess að ég fylgdi silfur linunni til baka og vaknaði í rúminu við það að kýlið á hnénu var sprungið og ægilegur gröftur flæddi um rúmið. Eftir það batnaði mér í hnénu. 


Skyggnin


Eftir þetta hefur stundum komið fyrir að mér finnist ég fljúga í burtu úr líkamanum á næturnar og sjá landslag og atburði gerast, sem ég les svo um kannski seinna. Ég hef komið á marga staði á Bretlandseyjum sem mér finnst ég hafa komið á áður á svona ferðalagi. Þar hef ég þekkt aftur hvern krók og kima. Elsta dóttir mín sá líka alls kyns atburði gerast á þennan hátt meðan hún var lítil. Stundum fengum við svo fréttir af þessum atburðum f fjölmiðlum seinna. Þetta er stundum óþægilegt að upplifa. Annað einkennilegt kemur stundum fyrir mig. Þegar ég hitti fólk þá veit ég oft hvað það muni segja í nokkurn tíma. Þetta er eins og að fá stikkorð í leikriti og vita svo hvað á eftir kemur. Ég hef reynt að sjá hve langt ég sé þannig fram en það er ekki langur tími. Mamma var skyggn og taldi sig sjá huldufólk og sagði okkur krökkunum sögur af því. Eg trúði þessu þá og gott ef ég trúi þessu ekki enn. Því skyldi sumt fólk ekki geta skynjað ýmislegt sem öðrum er hulið. Þetta geta hundarnir. Þeir skynja ýmislegt sem útilokað er að þeir geti skynjað með þekktum skynfærum. Dýr og frumbyggjar hafa skynjun sem nútíma- fólk er búið að glata.. Hundarnir mínir vissu t.d alltaf hvenær ég var að koma og þannig vissi Helga að koma og þannig vissi Helga að mín væri von löngu áður en ég kom. Penni vissi alltaf þegar pabbi minn var á leið til okkar löngu áður en hann kom. Þá heimtaði hann út og hljóp á móti föður mínum, þetta brást aldrei.


Penni og tófan


Penni var frábær veiðihundur. Hann var meira en helmingi fljótari að hlaupa en tófan. Það marka ég m.a. af því að eitt sinn komum við uppá hæð og sáum tófu. Hann var búinn að ná tófunni áður en hún hafði farið tvöfalda lengd. Við Sveinn veiðistjóri fórum mikið með Penna í veiðiferðir. Eitt sinn sátum við uppá Valabóli og sáum tófu. Hún sér hundinn fara af stað og hleypur í aðra átt en snýr svo við þegar hún er komin í skjól. Hundurinn fór líka eins að og þau mættust á miðri leið, þannig náði Penni þeirri tófu. Bæði hugsuðu það sama. Ég gat sent Penna eftir tófu sem var á bersvæði og hann hætti ekki fyrr en hann náði henni. Ef tófan var í holu þá lét hann mann vita hvar hún væri. Við Sveinn fórum einu sinni með Penna upp í Þingvallasveit. Við biðum eftir honum allan daginn við Gjábakka. Um kvöldið kom hann með tvær tófur. Seinna fréttum við frá mönnum sem voru að veiðum upp við Meyjarsæti að þar hefði tófa sést á ægilegri ferð og á eftir henni eitthvert ferlíki. Alla leið þangað hafði hann farið á eftir annarri tófunni. 


Penni nær í hjálp.


Ég treysti Penna vel, þvældist einsamall með hann um allt miðhálendið í þeirri fullvissu að hann myndi sækja hjálp ef eitthvað amaði að mér. Einu sinni sannreyndi ég þetta. Ég var þá staddur við Vífilsstaði. Penni var hræddur við skotvopn. É g skaut upp í loftið og lét mig detta. Hundurinn kom eins og byssubrenndur, þefaði augnablik af mér og hvarf svo. Hann var svo fljótur að hann var kominn úr heyrnarfæri áður en ég gæti kallað á hann. Hann fór rakleiðis heim til Helgu og beit í hendina á henni og dröslaði henni af stað með sér. Ég flýtti mér heim á eftir Penna og mætti honum með Helgu á leið til mín.


Penni bjargaði lífi okkar allra


Penni var mjög hvass og gætti óhemjulega vel heimilisins. Enginn ókunnugur mátti koma við neitt sem ég átti. Við fengum í langan tíma ekki neina opinbera reikninga. Þannig háttaði til að Það var gengið upp nokkrar tröppur til þess að komast upp á pall við sumarbústaðinn þar sem við bjuggum. Menn komust aldrei nema upp í tröppurnar, þá kom Penni og lagði hrammana á axlir komumanna og hrinti þeim fram af. Einn af rukkurunum náði sér í grjót og kastaði í gluggann af löngu færi og náði þannig tali af heimafólki.


Penni bjargaði eitt sinn lífi okkar allra. Ég var þá nýkominn heim úr veiðitúr og leyfði Penna aldrei þessu vant að sofa inni í stofu, nennti ekki með hann út á verkstæði þar sem hann var alla jafna. í sumarbústaðnum var miðstöð sem átti það til að gassprengja. Um kvöldið fórum við að sofa eins og vant var, en um nóttina vakna ég úti á stétt. Sumarbústaðurinn var lítið timburhús með risi og sváfum við uppi. Mjög þröngur stigi lá neðan af loftinu og niður þann stiga hafði hundurinn dröslað mér og út á hlað. Eg var illa særður á handleggnum af því hann hafði bitið mig þar til þess að geta dröslað mér út. Ég áttaði mig fljótlega á því að sprenging hafði orðið í húsinu og mér tókst að bjarga konu minni og þremur börnum út úr reykhafinu. Ég var allur nagaður því hundurinn hafði fyrst reynt að vekja mig, en Þegar það ekki tókst þá dró hann mig út undir bert loft. Ég sá hvernig hann skreið með gólfinu þar sem ekki var reykur. Svo var Penna fyrir að þakka að við sluppum öll heil á húfi þó tveir fengju reyndar væga reykeitrun.


Penni kemur til hjálpar


Eitt sinn gerðist það, þegar öll fjölskyldan sat að kvöldverði, að þrír gaurar komu skyndilega inn og sópuðu öllu af borðinu og hjóluðu í mig. Tveir króuðu mig af við gluggann og ég barðist þar við þá en sá þriðji réðst á Helgu. Henni tókst þó að opna dyrnar og kalla á Penna. Hundurinn var bundinn með töluverðri keðju við grunninn úti. Hann tók tilhlaup og sleit keðjuna og þeyttist inn okkur til hjálpar. Hann var svo fljótur að hreinsa til að ég varð að taka skart viðbragð til þess að bjarga lífi eins af mönnunum sem hann hafði skellt á jörðina.


Penni varði jafnan vel sitt fólk


Eitt sinn var ég með Penna í Auðsholti í Ölfusi. Þar voru sjö minkar undir vagni og mig langaði til að sjá hve snöggur Penni væri Ég lyfti upp vagninum en það komst enginn af minkunum undan vagninum. Sá sem lengst komst var kominn út í jaðarinn þegar Penni náði honum. Eitt sinn var ég að eltast við mink hér niður við læk. Hann var undir ofurlítilli þúfu og ég gerði þau mistök að stíga niður þúfuna. Þá snerist minkurinn til varnar og hljóp upp eftir mér til þess að bíta mig í hálsinn. Hann var ekki kominn nema upp á bringu þegar hundurinn flaug upp og greip hann. I eitt skipti vorum við Sveinn veiðistjóri staddir við sjoppu á Selfossi. Nokkrir fylliraftar voru þar fyrir utan en Penni sat inni í jeppa. Einn af fylliröftunum ætlaði að slangra eitthvað utan í mig en þá var Penna að mæta. Hann flaug út um gluggann og var búinn að fella manninn áður en hann kæmi höndum á mig. í annað skipti var öll fjölskyldan í útilegu. Forvitnar kýr komu að og þefuðu af dótinu okkar. Það hefðu þær ekki átt að gera þvi Penni reiddist slíkri ósvifni ákaflega og stökk á nautgripina og felldi einn þeirra umsvifalaust. Svo mikill var krafturinn á honum þegar hann stökk.


Pennasögur


Við Penni réttum stundum lögreglunni í Kópavogi hjálparhönd því Penni var frábær sporhundur. Eitt sinn hafði maður ráðist á kindur í Kópavogi og leikið þær illa. Leitað var eftir aðstoð Penna. Maðurinn hafði flúið úr fjárhúsinu en skilið eftir smá snifsi af úlpunni sinni á ódæðisstaðnum. Penni þefaði af úlpusnifsinu og þefaði sig síðan að húsi og var kominn þar með kjaftinn á háls manni sem lá þar inni áður en við varð litið, því hann gat opnað allar hurðir. Maðurinn varð svo hræddur að hann játaði allt í hvelli. Þrátt fyrir frábæra frammistöðu Penna í þessu máli og ýmsum öðrum þá urðu það örlög hans að lögreglan í Kópavogi skaut hann til bana þegar hann var á sjötta ári. Þetta var gert fyrir misskilning og varð úr mikil rekistefna. Þetta var mér mikið áfall, en Penni var dauður og því varð ekki breytt. Þessi hundur var gæddur svo frábærum hæfileikum að eftir að ég átti hann ber ég alla hunda saman við hann og þeir eru fáir sem standast þann samanburð. 


Orri


Ég átti líka pínulitla tík um sama leyti og ég átti Penna. Ég lét þau vera saman á verkstæðinu um tíma og taldi víst að það væri óhætt því hún var svo lítil en hann svo stór. En Penni fann ráð við því. Hann rak tíkina uppá stóran kassa og gerði henni þar hvolpa. Tvo þeirra átti ég um tíma og hét annar þeirra Orri og var góður veiðihundur. Ég hafði lítinn tíma til að sinna hundum eftir að ég hóf störf hjá lögreglunni.


Bruskur


Eftir að Penni dó fékk ég hund austur í sveit sem líktist honum í útliti, en lengra náðu líkindin ekki. É g skilaði þessum hundi fljótlega. Um sama leyti átti ég líka marga litla veiðihunda sem ég geymdi hjá Karlsen minkabana. En næsti heimilishundur sem við eignuðumst var af tegundinni fox terríer. Hann var blíður og góður heimilishundur en umbreyttist í blóðþyrst villidýr við veiðar. Þeir sem sáu hann heima við trúðu ekki að hann gæti neitt veitt en þeir sem sáu hann að veiðum trúðu því ekki að hægt væri að hafa hann innan um fólk. Brúskur hét þessi harðskeytti veiðihundur og dró nafn sitt af stórum brúski á dindlinum. Eitt sinn var ég með þennan hund austur í Hreppum í minkaleit. Inni í grjóturð vissum við af geysistórum mink, hann var inni í grjótsprungu og ekki hægt að ná honum. Eg var með fjóra hunda með mér, þar á meðal Brúsk, Orra, sem var líka ágætur veiðihundur, og Krumma, son Penna og litlu tíkurinnar sem ég sagði frá áðan. Brúskur var orðinn albrjálaður fyrir utan sprunguna og á endanum stóðst hann ekki mátið heldur tróð nefinu inn í sprunguna og lét minkinn bíta utan um snúðinn á sér, sem er viðkvæmasti hlutinn á hundum. Síðan spyrnti hann í og dró minkinn út úr sprungunni. Um leið og minkurinn var kominn út þá gripu hinir hundarnir hann og slitu hann af nefinu af Brúsk sem gargaði af kvölum. Þegar Brúskur náði aftur í minkinn þá sleppti hann honum ekki í hálfan dag. Eg reyndi að ná hræinu af honum en það var ekki hægt að opna munninn á honum, svo mikil var heiftin. Brúskur átti bróður sem félagi minn tók að sér. Þessir bræður slógust stundum svo heiftarlega að það var ekki hægt að ná þeim sundur nema að hella vatni upp í nasirnar á þeim. Brúskur lifði svo æsandi lífi að hann dó að lokum úr hjartaslagi. Hann var orðinn hjartveikur og ég var farinn að hlífa honum undir það síðasta, en hann undi því illa. Hann vissi alltaf þegar ég ætlaði í veiðiferð, þá settist hann við dyrnar og ætlaði með mér út. Hann var ægilega sár þegar ég skildi hann eftir. Einu sinni sá ég aumur á honum og tók hann með mér austur í Ölfus. Þar lenti hann í mink og varð að gefast upp milli tveggja útgangna á greni. Ég varð að bera hann inn í bílinn og fara með hann heim. Hann dó tveimur dögum seinna. 

Bruskur gengur aftur

Hans varð vart á heimilinu í langan tíma eftir að hann dó. Ef honum mislíkaði eitthvað meðan hann lifði, þá hafði hann haft fyrir vana að gefa frá sér vonda lykt. í mörg ár eftir þetta gaus upp þessi sama lykt, ógurlega sterk, frá stólnum sem hann hafði verið vanur að liggja í ef inn komu ókunnugir hundar eða því um líkt. Þetta fundu bæði heimilismenn og aðkomufólk. Það hafa fleiri af mínum hundum gert vart við sig eftir andlátið en þessi hefur gert það á tilþrifamestan hátt.Hundurinn er hamingjusamastur ef honum hefur tekist að gera eitthvað sem honum er hrósað fyrir.

Hundarnir hafa eitthvað sem við mennirnir erum búnir að týna.

Ég var þekktur fyrir að hafa áhuga á schæferhundum. Stundum kom fyrir að menn smygluðu inn í landið schæfer hundum og oftar en ekki enduðu þeir hundar hjá mér. Þá voru þeir hættir að vera litlir og sætir hvolpar og fólk vissi ekki hvað það átti við þá að gera. Þessir hundar voru það ungir að mér gekk ágætlega að kenna þeim, nokkrir þeirra urðu ágætir spor- hundar. Einn þeirra var fenginn til að vakta portið í Vöku og reyndist þar mjög vel og lifði lengi. Annan lánaði ég upp í Hvítárvallaskála í Borgarfirði. Þar hafði verið ófriður af skemmdarvörgum en hundurinn var ekki lengi að hreinsa þar til. Við slíka þjálfun vekur maður athygli hundsins á því sem maður vill að þeir geri og hrósar þeim ef vel tekst til hjá þeim. Hundurinn er hamingjusamastur ef honum hefur tekist að gera eitthvað sem honum er hrósað fyrir. Til þess að þetta gangi vel þarf sambandið milli húsbóndans og hundsins að vera mjög náið. Þefnæmi sumra hunda er ógurlegt en það er líka eitthvað annað sem kemur til. Eg hef séð svo mörg dæmi þess að hundur finnur hlut sem útilokað er að hann geti fundið eftir leiðum þekktra skynfæra. Hundarnir hafa eitthvað sem við mennirnir erum búnir að týna.PrinsÞegar leið fram undir 1970 fóru menn að gera sér ljóst að það væri mikil þörf fyrir sporhunda hjá lögreglunni. Eitt sinn ætluðu lögreglan, skátarnir og slysavarnafélög að sameinast um að kaupa sporhund og kosta þjálfun hans. Danskir menn sem ég þekkti voru búnir að kaupa hund í þessu skyni og ég var búinn að ákveða hvenær ég færi út til að þjálfa hundinn. En þá kom upp hundaæði í Jótlandi þar sem fyrirhugað var að ég yrði, svo ekkert varð úr þessari ráðagerð. I framhaldi af þessu kom fram hugmynd um að fá hingað til Iands hund þjálfaðan í að finna fíkniefni. Árið 1971 fór ég til Englands á skóla þar og kom svo með labrador hund hingað til fíkniefnaleitar. Sá hundur hét Prins og hann reyndist vel, fann talsvert af fíkniefnum. SkuggiSeinna ólum við upp schæfer hund til fíkniefnaleitar og slíkir hundar eru notaðir með árangri enn í dag. Sá hundur hét Skuggi og reyndist einnig vel. 

Annars eru Íslendingar furðulegir hvað snertir afstöðu til þessara mála. Úti í heimi eru hundar einhver bestu hjálpartæki sem lögreglan og tollgæslan eiga völ á. Hér á landi skiptir í tvö horn, annað hvort telja menn að slíkir hundar geti allt eða þá að þeir geti ekkert. Sannleikurinn er sá að slíkir hundar geta orðið til mikillar hjálpar en þeir leysa ekki allan vanda. Þegar ég kom heim með Prins fann ég að þessi nýjung mætti andstöðu hjá sumum. Þeir voru til sem gerðu sér næstum að íþrótt að villa um fyrir hundinum og reyndu með öllum ráðum að sýna fram á að hann væri ekki til neins nýtur. Þetta leiddist mér mikið, sérstaklega af því að meðal þessara andstæðinga voru menn sem hefðu átt að vinna með manni. Þetta kom þó ekki í veg fyrir að hundarnir yrðu að góðu gagni. Það kemur fyrir að rannsóknarlögreglan leiti aðstoðar hjá hjálparsveitum skáta sem eru með sporhunda og stundum gefa þeir góðar vísbendingar.Viltur með StubbaÁ seinni árum hef ég að mestu hætt að þjálfa hunda. Eg er einnig að mestu hættur að fara í veiði- og fjallaferðir. Ég hafði lengi þann hæfileika að geta ekki villst. Ég vissi alltaf hvaða leið ég ætti að fara. Eg fann þetta bara en veit ekki af hverju þetta var svo. Ég sá bara línu sem ég fylgdi án nokkurrar umhugsunar eða ígrundunar og vissi þannig hvaða leið ég ætti að fara, og það brást ekki að ég kæmi beint niður að bílnum mínum. En þessum góða hæfileika glataði ég fyrir nokkuð mörgum árum. Þá var ég uppi i Bláfjöllum, í Lönguhlíð í glaðasólskini og góðu veðri og var með son minn með mér. Ég hafði sagst ætla á ákveðinn stað en svo snerist mér hugur og fór í aðra átt, en slíkt ætti enginn maður að gera, því ef menn týnast þá er leitað að þeim á röngum stað. Skyndilega skall á mig svartaþoka og ausandi rigning og rok. Strákurinn gafst upp strax og ég varð að bera hann en ég var hinn rólegasti því samkvæmt reynslu minni þá átti ég ekki að geta villst. Ég tók strikið í þokunni en allt í einu rak ég mig á hraunkant sem ekki átti að verða á vegi mínum. Þetta var mér mikið áfall og ég þurfti verulega að taka á til þess að láta skynsemina ráða yfir þeirri sterku tilfinningu sem beindi mér í þveröfuga átt við það sem rétt var. Loks tók skynsemin ráðin og ég sneri við. Ég hafði hvorki landabréf né kompás meðferðis svo ég reyndi að fara eftir landslaginu og þannig tókst mér að finna bílinn. Ég var svo hræddur við að tapa áttunum að þegar ég kom að gíg sem ég þekkti vel, þá þorði ég ekki að fara í kringum hann, heldur gekk beint yfir hann. í þessari ferð varð ég fyrir verulegu áfalli þegar ég gerði mér ljóst að ég hafði glatað þeim einstæða hæfileika að geta ekki villst. Hefði skynsemin ekki náð yfirtökunum þarna þá hefðum við feðgar sennilega orðið úti því það stytti ekki upp i marga sólarhringa né heldur lægði rokið og við höfðum farið í öfuga átt við það sem ég hafði sagt konu minni. Núna sé ég ekki línuna góðu lengur og hef ég haft með mér landabréf og kompás á ferðalögum eftir þessa reynslu.Hef misst drápslystinaAnnað hefur breyst í fari mínu með aldrinum. Löngunin til þess að veiða hefur horfið frá mér. Einn vinur minn segir að ég hafi misst drápslystina og það er alveg rétt hjá honum. Það gengur svo langt að hagamýs eru farnar leita skjóls hjá mér. Um daginn gengu félagar mínir fram á hóp af hagamúsum sem hafa líklega verið að koma úr hreiðri. Þær flýðu eins og fætur toguðu undan þeim og í áttina til mín. Ég lyfti bara fætinum og þær hnöppuðust undir fótinn á mér og voru þar meðan hinir gengu framhjá. Svo gekk ég áfram en þær urðu eftir og röltu svo niður í fjöru. Sannleikurinn er sá að ég vil ekki lengur drepa. Ég myndi eflaust gera það ef á þyrfti að halda en geri það alls ekki að öðrum kosti. HeppinnEg varð aldrei fyrir neinu óhappi í þessum veiðiferðum en stundum munaði þó litlu. Einu sinni var ég mjög heppinn. Ég var á minkaveiðum við Þingvallavatn. Ég var með hlaðna tvíhleypta haglabyssu sem ég gekk með. Maður þurfti að vera eldfljótur að bregða byssunni því minkarnir voru fljótir að skjótast út úr víkunum. Ég þurfti eitt sinn að hoppa yfir smá gjá og nennti ekki að taka skotin úr byssunni en setti hana á bakið og tók tilhlaup. Þegar ég lendi hinumegin á grjótinu þá losnar ólin að ofanverðu á byssunni og hún dettur á endann fyrir aftan mig. Ég var í skinnúlpu og skotin fóru upp eftir hryggnum á mér og opnuðu fötin að aftan. Af því ég var álútur slapp hnakkinn á mér, annars hefði hann hreinsast af. Eftir þetta gekk ég aldrei um með hlaðna byssu. Ég hef að mestu leyti látið af fjallaferðum, en ég sakna þeirra því þær gáfu mér svo mikinn kraft, andlegan sem líkamlegan. 

Oft tefldi ég þó í tvísýnu í þeim ferðum, en ég treysti jafnan á ratvísi mína og svo hundana. Það væri talið glapræði og heimska að fara eins útbúinn í fjallaferðir og ég gerði. Ég hafði oftast ekki með mér neitt af því sem nú þykir nauðsynlegt. Ég flæktist um óbyggðir á gömlum Skoda bíl án þess að hafa svo mikið sem skrúfjárn með mér, ég var svo öruggur með sjálfan mig. Nú er þetta allt breytt en ég tek þó öðru hverju rispu og fer til fjalla. Það finnst mér að fleiri ættu að gera. Fjöllin gefa kraft og auk þess hafa menn gott af að ganga og hugsa sitt ráð.”

 

Fleiri skemmitlegar sögur af stöðum, hundum og draugum.

Draugasaga

Stapa draugurinn!

Einhver skemmtileg saga sem hægt er að tengja við stað á kortinu her fyrir ofan.

 

íþrótta sögur

Skautahlaup

Einhver skemmtileg saga sem hægt er að tengja við stað á kortinu her fyrir ofan.

 

Dýrasögur

Löggusögur

Einhver skemmtileg saga sem hægt er að tengja við stað á kortinu her fyrir ofan.

 

Dýrasögur

Fleiri hundasögur

Einhver skemmtileg saga sem hægt er að tengja við stað á kortinu her fyrir ofan.

 

Veiðisaga

veiðisaga

Einhver skemmtileg saga sem hægt er að tengja við stað á kortinu her fyrir ofan.

Afrekssögur

judo

Einhver skemmtileg saga sem hægt er að tengja við stað á kortinu her fyrir ofan.